Formáli

Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja eru nú gefnar út í fimmta skipti á Íslandi. Útgáfuaðilar eru líkt og áður Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Fyrsta útgáfa leiðbeininganna kom út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma.

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá fyrstu útgáfu leiðbeininganna. Íslenskt efnahagslíf hefur siglt í gegnum ólgusjó sem hægt er að draga mikinn lærdóm af. Þar má m.a. nefna þá staðreynd að ábyrgð stjórna og stjórnenda fyrirtækja er umfangsmeiri en margir hefðu ætlað fyrir áratug síðan. Það kemur því ekki á óvart að sömu aðilar geri sér sífellt betur grein fyrir áhrifum góðra stjórnarhátta á eigin frammistöðu og langtímaafkomu fyrirtækja.

Leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Það er jafnframt skoðun útgáfuaðila að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Það er ástæða til að fagna þeirri vitundarvakningu um góða stjórnarhætti sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Upplag síðustu leiðbeininga var stærra en nokkru sinni fyrr og fyrirspurnum um efni þeirra og álitamál hefur fjölgað jafnt og þétt. Þá hefur fjöldi opinna funda og ráðstefna verið haldinn frá útgáfu síðustu leiðbeininga með aðkomu ýmissa ólíkra aðila. Að lokum ber að nefna að fjölmörg fyrirtæki hafa undirgengist úttektir á stjórnarháttum að eigin frumkvæði.

Þó ávallt megi gera betur eru þetta jákvæðar vísbendingar um að sífellt fleiri sjái sér hag í því að tileinka sér góða stjórnarhætti. Mikilvægt er að tryggja að sú þróun haldi áfram. Það er mat útgáfuaðila leiðbeininganna að til þess að svo megi verða þurfi áfram að halda uppi virkri umræðu og samstarfi ólíkra aðila í þessum mikilvæga málaflokki. Má þar nefna fyrirtæki, fjárfesta af ólíkum stærðum og gerðum, fjölmiðla, lánadrottna, eftirlitsaðila, menntastofnanir, rannsóknaraðila, ráðgjafa, atvinnulífssamtök og stjórnmálamenn. Það er í hag allra þessara aðila að góðir stjórnarhættir séu hafðir að leiðarljósi sem víðast.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á leiðbeiningunum frá 4. útgáfu þeirra. Í endurskoðunarferlinu var lögð áhersla á að gera leiðbeiningarnar skýrari og notendavænni með almennum breytingum á formi, uppsetningu og orðalagi. Þá hefur verið bætt úr ýmsum ágöllum í takt við ábendingar frá notendum leiðbeininganna. Að lokum hafa tilmæli leiðbeininganna verið endurskoðuð með það að markmiði að leiðbeiningarnar henti íslensku atvinnulífi sem best, en séu á sama tíma í samræmi við alþjóðlega staðla og þróun.


Þakkir:

Í starfshópi um stjórnarhætti fyrirtækja sátu fulltrúar útgáfuaðila ásamt sérfræðingum úr atvinnulífi og háskólasamfélaginu. Í hópnum sátu: Þóranna Jónsdóttir forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík (formaður), Bergþóra Halldórsdóttir lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Haraldur I. Birgisson lögfræðingur hjá Deloitte, Hildur Árnadóttir forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslandsbanka, Hjörleifur Pálsson ráðgjafi og formaður stjórnar Háskólans í Reykjavík og Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar. Verkefnisstjóri var Marta Guðrún Blöndal lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Útgáfuaðilar, starfshópurinn og verkefnisstjóri 5. útgáfu leiðbeininganna vilja koma á framfæri þakklæti fyrir aðstoð og ábendingar frá þeim fjölmörgu aðilum sem tóku þátt í endurskoðun leiðbeininganna. Leitað var til fulltrúa aðildarfyrirtækja Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins, fulltrúa mennta- og eftirlitsstofnana, ýmissa sérfræðinga í stjórnarháttum fyrirtækja, erlendra fræðimanna á sviði stjórnarhátta auk fjölmargra stjórnarmanna íslenskra fyrirtækja. Framlag allra hlutaðeigandi hefur verið ómetanlegt og hefur skilað þeim jákvæðu breytingum sem nú eiga sér stað á leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.